Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 19/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Skattinum

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði þá ákvörðun S að ráða tiltekna konu í starf sérfræðings á Eftirlits- og rannsóknasviði hjá embættinu, en hún var ein fjögurra kvenna sem voru ráðnar á sama tíma auk þriggja karla. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Var því ekki fallist á að S hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 11. október 2023 er tekið fyrir mál nr. 19/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 27. nóvember 2022, kærði A þá ákvörðun Skattsins að ráða tiltekna konu í starf sérfræðings á Eftirlits- og rannsóknasviði hjá embættinu en hún var ein fjögurra kvenna sem voru ráðnar á sama tíma auk þriggja karla. Telur kærandi að með ráðningu konunnar hafi kærði brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 2. desember 2022. Greinar­gerð kærða ásamt fylgigögnum barst með bréfi, dags. 22. s.m., og voru gögnin send kæranda sama dag. Athugasemdir kæranda eru dags. 27. desember 2022 og 16. janúar 2023 og athugasemdir kærða 10. og 30. janúar 2023. Kærunefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá kærða með bréfi, dags. 26. júlí 2023, sem bárust hinn 16. ágúst s.á. og voru sendar kæranda til kynningar 5. september s.á. Viðbótargagn barst með bréfi frá kæranda degi síðar og var áframsent kærða til kynningar 11. s.m. Kærði brást við með tölvupósti hinn 14. s.m., sem var áframsendur kæranda til kynningar sama dag. Þá var tölvubréf kærða frá 16. ágúst 2023 sent kæranda til kynningar 27. september s.á. og kærandi brást við sama dag og ítrekaði fyrri athugasemdir.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Hinn 5. febrúar 2022 auglýsti Skatturinn laus til umsóknar störf á Eftirlits- og rannsóknasviði. Í auglýsingunni kom fram að helstu verkefni fælust í úrvinnslu eftirlits- og rannsóknarverkefna gagnvart lögaðilum og einstaklingum, ásamt ákvörð­unum um beitingu viðurlaga vegna mögulegra skattundanskota og vantalinna skatt­stofna. Einnig væri um að ræða úrlausn fjölbreyttra lögfræðilegra álitaefna innan sviðs­ins. Hæfniskröfur voru háskólamenntun sem nýttist í starfi, t.d. á sviði viðskiptafræði, lögfræði eða hagfræði, að lágmarki BS- eða BA-gráða, en meistaragráða væri æskileg. Þekking á reikningsskilum, málsmeðferðarreglum, almennri skatt­framkvæmd og stjórnsýslurétti væri æskileg. Gert var að skilyrði gott vald á íslensku í töluðu og rituðu máli en önnur tungumálakunnátta væri kostur. Þá var gerð krafa um lipurð og færni í mannlegum samskiptum, skipulögð, nákvæm og sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði, metnað og getu til að vinna undir álagi, jákvæðni og ríka þjónustulund, góða almenna tölvukunnáttu og hreint sakavottorð.
  5. Áttatíu og ein umsókn barst um störfin. Ákveðið var að bjóða 21 umsækjanda í viðtal, sem þótti best uppfylla hæfnikröfur auglýsingarinnar. Kærandi var einn þeirra og þáði hann viðtal ásamt 18 öðrum. Í framhaldinu var 13 boðið í síðara viðtal en kærandi var ekki þeirra á meðal. Að loknum þeim viðtölum var ákveðið að ráða sjö þeirra, þrjá karla og fjórar konur.
  6. Hinn 13. maí 2022 óskaði kærandi eftir að fá ákvörðunina rökstudda og var rökstuðn­ingur veittur 27. s.m.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  7. Kærandi telur að sér hafi verið mismunað á grundvelli kyns þar sem hann sé hæfari en sú kona sem kæra hans beinist að og sem var ráðin til að gegna umræddu starfi, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Sé hann með meiri menntun, sérþekkingu og starfs­reynslu en hún, auk þess að búa yfir öðrum sérstökum hæfileikum sem gerð var krafa um í auglýsingu.
  8. Kærandi bendir á að hann sé með BA-próf og meistaragráðu í lögfræði, auk þess sem hann hafi lokið námskeiði til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður og fyrri hluta námi við Tollskóla ríkisins. Þá hafi hann verið búinn að ljúka 90 af 120 einingum í MBA-námi í viðskiptafræði þar sem áætluð námslok hafi verið vorið 2022. Til samanburðar hafi konan sem var ráðin lokið BA-prófi í lögfræði en ekki meistaraprófi en hún hefði áformað að ljúka MPM-námi í verkfræði vorið 2022. Bendir kærandi á að meistaragráða hafi verið talin æskileg í hæfisskilyrðum í auglýsingu. Þá telur kærandi að hann búi yfir meiri sérþekkingu en sú sem var ráðin enda hafi hann sérhæft sig á sviði stjórnsýsluréttar í laganáminu en þekking á því réttarsviði hafi verið talin æskileg í auglýsingu. Þá hafi hann líka yfir að búa meiri sérþekkingu á sviði skattaréttar, sakamálaréttarfars, refsiréttar eða öðrum sviðum sem nýtast sérstaklega í starfi rannsakanda í rannsóknardeild skattrannsóknarstjóra.
  9. Telur kærandi að hann hafi búið yfir meiri starfsreynslu sem nýtist í starfi rannsakanda en sú kona sem var ráðin og kæra hans beinist að, enda hafi hann starfað við skattamál frá árinu 2016 og sinnt ýmsum verkefnum sem snúa að framkvæmd skattamála, þ.m.t. greiningu, álagningu, endurskoðun og innheimtu á sköttum. Þá hafi hann starfað innan lögreglunnar á árunum 2011–2016 og sinnt þar ­greiningum, rann­sóknum og saksókn í hinum ýmsu málaflokkum sakamála. Telur kærandi að ráðningar­teymið hafi vanmetið starfsreynslu hans á sviði sakamálaréttarfars, með því að hann fékk eitt stig í matinu fyrir það en hefði átt að fá fimm stig þar sem hann hefði meira en fimm ára starfsreynslu á því sviði. Hann hafi starfað hjá sýslumanni frá árinu 2021 og m.a. sinnt innheimtu skatta og annarra opinberra gjalda á landsvísu, þ.m.t. fésekta. Til samanburðar hefði kona sem var ráðin og kæra hans beinist að hvorki starfsreynslu af meðferð sakamála né skattamála. Þá hefði hún takmarkaða reynslu af opinberri stjórnsýslu.
  10. Kærandi telur sig búa yfir öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa var gerð um. Bendir kærandi á að í auglýsingu hafi verið gerð krafa um samskiptahæfni, skipulagshæfni, nákvæmni, sjálfstæði, frumkvæði, metnað, getu til að vinna undir álagi, jákvæðni og ríka þjónustulund. Á matsblaðinu hafi umsækjendur aftur á móti einungis verið metnir út frá fimm huglægum þáttum, þ.e. viðmóti og mannlegri færni í viðtali, reynslu af erfiðum samskiptum, reynslu af frumkvæði í starfi, sýn og áhuga á starfinu og getu til að starfa undir álagi. Kærandi hafi einungis verið spurður ellefu staðlaðra spurninga í viðtalinu á meðan aðrir umsækjendur hafi verið spurðir að meðaltali 18 spurninga. Þá hafi hann ekki verið spurður út í matsþættina samskiptafærni og reynslu af erfiðum samskiptum, reynslu af frumkvæði í starfi eða getu til að vinna undir álagi. Hann hafi þó lýst flestum þessum huglægu eiginleikum í ferilskrá, þar sem hann tók fram að hann teldi sig sýna öguð vinnubrögð, vera sjálfstæðan í vinnubrögðum, hafa frumkvæði, búa yfir samskiptahæfni og hafa teymishæfni.
  11. Kærandi vekur athygli á því að ekki sé rétt farið með málsatvik við ritun samantektar úr viðtali og gerir athugasemdir við ýmsar fullyrðingar og að orð hans séu tekin úr samhengi. Sé því látið líta út fyrir að tiltekin atburðarás hafi átt sér stað sem enginn fótur sé fyrir. Hafi ráðningarteymið viðhaft gerendameðvirkni og látið hann sem brota­þola bera ábyrgð á einhverju sem aðrir beri fulla og óskipta ábyrgð á. Þá hafi mannauðs­stjóri kærða ákveðið að láta minnisblað í tengslum við óskylt kjaramál hans, þegar hann var starfsmaður hjá Tollstjóra, hafa réttaráhrif í málinu. Þegar kærandi hefði bent á að Tollstjóri hefði ógilt minnisblaðið fyrir mörgum árum og að réttaráhrif þess væru engin hefði kærði engu svarað.
  12. Kærandi bendir á að því sé ekki andmælt af hálfu kærða að hann hafi staðið framar konunni sem var ráðin og kæra hans beinist að hvað varðar menntun, starfsreynslu og sérþekkingu í skilningi 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Hins vegar telji kærði að hún hafi staðið honum framar hvað varðar samskiptahæfni.
  13. Kærandi leggur áherslu á að hann hafi aldrei átt í neinum samskiptavandamálum við samstarfsfólk sitt þau ár sem hann starfaði hjá Tollstjóra, t.d. hafi báðir yfirmenn hans gefið honum toppmeðmæli þegar eftir því hefur verið leitað. Kærandi telur að kærði hafi byggt á ómálefnalegu sjónarmiði þegar hann leit sérstaklega til fyrrnefnds minnis­blaðs um kjaramál hans hjá embættinu í tengslum við þetta óskylda ráðningar­mál kærða. Þá telur hann ljóst að kærði hafi látið hann gjalda þess að hafa leitað réttar síns fyrir kærunefnd jafnréttismála í öðru óskyldu máli vegna brota skattrannsóknar­stjóra á jafnréttislögum. Hann hafi unnið það mál og því ætti kærði að sýna auðmýkt og virða það honum til betri vegar í stað þess að nota það mál gegn honum í þessu máli. Að auki mótmælir kærandi því að hafa hljóðritað starfsfólk skattrannsóknarstjóra en kærða beri að koma þessum ásökunum í lögformlegan farveg í stað þess að ásaka hann um lögbrot. Beri kærunefnd að líta til þess að kærði byggði á ómálefnalegu sjónarmiði þegar hann leit sérstaklega til þess að kærandi hefði áður leitað réttar síns hjá nefndinni í öðru óskyldu máli.
  14. Kærandi tekur fram að kærði hafi ekki reist mat sitt á huglægri hæfni kæranda á „mjög traustum grunni“ eins og kærða beri að gera samkvæmt forsendum í úrskurði kæru­nefndar jafnréttismála í máli nr. 17/2020. Telur kærandi sig geta sannað með fullnægjandi hætti að mat kærða á frammistöðu hans í starfsviðtali hafi verið óforsvaranlegt þar sem hann geti lagt fram upptöku sem hafi að geyma öll svör hans við spurningum Skattsins. Upptakan sýni að það sem var skrifað í samantektina hafi ekki verið í neinu samhengi við það sem í raun og veru fór fram í viðtalinu. Ályktanir Skattsins séu þannig augljóslega óforsvaranlegar og því skilyrði fyrir kærunefnd jafnréttismála til að endurskoða mat kærða á frammistöðu hans í starfsviðtali.
  15. Telur kærandi sig hafa leitt nægar líkur að því að við ráðninguna hafi sér verið mismun­að á grundvelli kyns. Að sama skapi telur kærandi að kærði hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að aðrar ástæður en kyn þeirrar sem var ráðin hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu hennar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  16. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við ráðningu konunnar sem kæra beinist að.
  17. Kærði tekur fram að hann hafi auglýst eftir öflugum liðsauka til að takast á við nýjar áskoranir og krefjandi viðfangsefni sameinaðrar starfsemi skatteftirlits og skatt­rannsókna. Um hafi verið að ræða nokkur störf sérfræðinga í ólíkum deildum á nýstofn­uðu Eftirlits- og rannsóknasviði innan kærða. Mismunandi sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við mat á umsækjendum þó að um eitt umsóknarferli hafi verið að ræða. Við val á umsækjendum sem fengu boð í viðtal hafi verið horft til menntunar og reynslu sem best nýttist í þau störf sem auglýst voru en huglægir þættir hafi haft töluverða þýðingu við störf rannsakenda.
  18. Kærði bendir á að í starfi sérfræðings á rannsóknasviði felist rannsókn skattalagabrota, samskipti og bréfaskriftir við skattaðila og aðra er málinu tengjast, skýrslutökur og húsleit hjá sakborningum, greining á bókhaldsgögnum, ritun skýrslna og mótun sátta­gjörða. Almennt þurfi að gæta hófsemi í gagnaöflun sem byggt er á í framhaldinu. Í starfinu sé mikil áhersla lögð á samvinnu, hópastarf og að fylgt sé skýru verklagi og verkstjórn.
  19. Kærði tekur fram að í hæfniskröfum hafi verið gerð krafa um gott vald á íslensku í töluðu og rituðu máli ásamt lipurð og færni í mannlegum samskiptum. Hafi þessar kröfur verið settar fram vegna þeirra veigamiklu samskipta við skattaðila sem starfið feli í sér. Hafi sérstaklega verið horft til þess við mat á umsækjendum hvernig þeir myndu standa sig í samskiptum við skattaðila. Þá bendir kærði á að í skýrslutökum sé mikilvægt að þeim sem rannsókn sæta sé sýnd nærgætni og virðing og ekki sé farið offari í samskiptum. Rannsakandi þurfi engu að síður að vera ákveðinn en jafnframt næmur á andrúmsloft og tilfinningar, hafa færni til að lesa umhverfið og geta sýnt stuðning og mýkt þegar slíkt eigi við. Tekur kærði fram að rannsakandi megi þannig ekki koma fram sem yfirboðari eða af mikilmennsku heldur hafa færni til að búa til brú sem leiði til góðs árangurs að gættri meðalhófsreglu. Þá sé mikilvægt að rannsakandi vinni af trausti og heiðarleika. Þannig þurfi rannsakandi að búa yfir ákveðinni samskiptahæfni, bæði gagnvart þeim sem rannsókn beinist að og samstarfsmönnum.
  20. Kærði tekur fram að konan sem kæran beinist að hafi þótt drífandi og röggsöm og að hún hafi sýnt fram á getu til að taka forystu, vinna í hóp og hlusta. Með MPM-námi hennar þótti einkum felast tækifæri til að fá nýja vídd og sýn inn í deildina. Hún hafi haft víðtæka reynslu af fjármálaráðgjöf og þjónustustörfum sem og reynslu af samskipt­um við fólk í greiðsluerfiðleikum. Bendir kærði á að slík samskipti séu ekki frábrugðin þeim samskiptum og aðstæðum sem skapast við rannsóknir skattalaga­brota. Þá hafi hún haft einstaklega jákvætt viðmót og þægilega nærveru í viðtali sem væri mikilvægur eiginleiki fyrir rannsakendur. Þótti hún þannig uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar væru við nýráðningar starfsmanna.
  21. Kærði tekur fram að samvinna og gagnkvæmt traust séu eiginleikar sem hafi verið ráðandi þáttur að uppfylltum kröfum um þá reynslu og menntun sem horft væri til við ráðningu starfsmanna þannig að þeir féllu að þeirri vinnustaðamenningu sem kærði hefur unnið að uppbyggingu á. Ljóst mætti vera að umsækjandi sem stæði öðrum aug­ljóslega að baki hvað framangreinda þætti varðar eða myndi jafnvel ekki til framtíðar falla inn í hóp samhentra starfsmanna gæti átt verulega langt í land með að vega það upp með ágæti á öðrum sviðum. Ekki yrði þannig komist hjá því að rekja í stórum dráttum samskiptasögu og reynslu af kæranda í samskiptum við starfsmenn embættisins.
  22. Kærði tekur fram að við ákvörðun um að bjóða kæranda ekki í síðara viðtal hafi m.a. verið horft til minnisblaðs, dags. 15. september 2019, sem ritað var þegar kærandi var starfsmaður hjá Tollstjóra sem hefði nú sameinast kærða. Í minnisblaðinu komi fram að honum hafi verið veitt formlegt tiltal vegna hegðunar og myndi hann ekki láta af henni gæti áframhaldandi sambærileg hegðun leitt til áminningar. Þá voru rakin til­tekin samskipti kæranda við þáverandi samstarfsfólk og að þau vektu upp spurningar um samskiptahæfni hans sem væri mjög mikilvægur hluti af starfinu. Bendir kærði á að minnisblaðið hafi ekki sömu réttaráhrif og áminning, eins og kærandi fékk staðfest á sínum tíma. Leiði slík staðfesting aftur á móti ekki til þess að minnisblaðið hafi glatað efni sínu eða geti ekki verið dregið fram síðar, ásamt öðrum gögnum er mál getur varðað, þegar til skoðunar kemur hvort ráða eigi viðkomandi starfsmann til starfa að nýju. Telur kærði að af síðari samskiptum kæranda við kærða megi sjá skort hans á almennum samskiptaháttum sem hafi komið m.a. fram í minnisblaðinu. Þyki því til frekari stuðnings mega vísa til framsetningar málsatvika í kæru, eftir því sem við á, sem og umfangsmikillar framlagningar gagna sem ætluð séu málflutningi kæranda til stuðnings. Þá bendir kærði á að kærandi hafi áður staðið í deilum við embættið fyrir nefndinni vegna annars ráðningarmáls hjá skattrannsóknarstjóra en samskipti og framkoma kæranda í tengslum við leynda upptöku á samtölum við starfsmenn embættisins séu rakin í úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 17/2020. Af svörum kæranda við viðtalsspurningum er lutu að fyrrgreindu máli og framkomu í viðtalinu sjálfu hafi mátt ráða að ekki væri óvarlegt að leiða líkum að því að farsælt samstarf myndi ekki takast, eins og rakið er í samantekt á viðtali. Auk þess hafi ekki verið fyllilega ljóst hvaða hvatir lágu að baki umsókn að þessu sinni, að virtu því sem á undan var gengið.
  23. Kærði bendir á að þegar svo verulega skortir á samskiptafærni og/eða fyrirsjáanleika í samskiptum yrði seint fullnægt þeim huglægu kröfum sem gerðar væru til þeirra sem embættið kýs að ráða til starfa á Eftirlits- og rannsóknasviði. Jafnframt hafi þótt mega horfa til þess að embættinu væri vart talið skylt að standa að ráðningu þegar talið yrði verulega ólíklegt að slík ráðning myndi leiða til farsælla samskipta gagnvart samstarfs­mönnum eða viðskiptamönnum kærða.
  24. Kærði hafnar því að kærandi hafi verið látinn gjalda þess að hafa áður leitað réttar síns. Framkoma hans og samskipti við einstaka starfsmenn embættisins í tengslum við hljóðupptökur hafi hins vegar vakið spurningar um samskiptahæfni kæranda, heiðar­leika og traust. Ekki verði merkt að kærandi hafi séð að sér eða gefið bætta hegðun til kynna líkt og fram komi í viðtali við hann og vísað er til í samantekt viðtals. Hafi kærandi m.a. verið spurður í viðtali hvernig traust horfði við honum í framhaldi af því sem á undan hefði gengið en hann taldi það ekki vera á sínum herðum að byggja upp traust. Upptaka væri, að sögn kæranda, hugarburður skattrannsóknarstjóra og sviðs­stjóra Eftirlits- og rannsóknasviðs.
  25. Kærði bendir á að í upphafi ráðningarviðtalsins hafi kærandi staðfest við viðmælendur að viðtalið væri ekki tekið upp. Þrátt fyrir það hafi hann lagt fram upptöku sem hann segir að sé úr því viðtali og samhliða því rennt enn frekari stoðum undir heildarmat kærða varðandi þá meinbugi sem voru, eru og verða ótvírætt til staðar.
  26. Kærði tekur fram að kæranda hafi verið veitt viðtal til að gefa honum færi á að sýna fram á mögulegar framfarir í mannlegum samskiptum en innsend umsóknargögn hafi ekki borið slíkt með sér. Líkt og fram kemur í samantekt vegna viðtals þótti vanta upp á þá samstarfs- og samskiptahæfni sem er mikilvægt að rannsakendur á Eftirlits- og rannsóknasviði hafi yfir að ráða. Þótti kærandi þannig ekki þeim kostum búinn sem sóst var eftir. Telur kærði því ljóst að ekki hafi átt sér stað mismunun við ráðningu í starf á grundvelli kyns.

    NIÐURSTAÐA

     

  27. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu tiltekinnar konu í starf sérfræðings við embættið. Gerir kærandi einungis athugasemdir við ráðningu þessarar einu konu af þeim fjórum sem voru ráðnar en fyrir liggur að þrír karlar og fjórar konur voru ráðin í störf sérfræðinga hjá kærða á grundvelli auglýsingarinnar.
  28. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  29. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  30. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þess­ara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endur­skoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  31. Í auglýsingunni um störfin sem liggja til grundvallar máli þessu kom fram að helstu verkefni fælust í úrvinnslu eftirlits- og rannsóknarverkefna gagnvart lögaðilum og einstaklingum, ásamt ákvörðunum um beitingu viðurlaga vegna mögulegra skatt­undanskota og vantalinna skattstofna en einnig væri um að ræða úrlausn fjölbreyttra lögfræðilegra álitaefna innan sviðsins. Gerð var krafa um háskólamenntun sem nýttist í starfi, t.d. á sviði viðskiptafræði, lögfræði eða hagfræði, að lágmarki BS- eða BA-gráða en meistaragráða væri æskileg. Þekking á reikningsskilum, málsmeðferðarreglum, almennri skattframkvæmd og stjórnsýslurétti var talin æskileg. Gerð var krafa um gott vald á íslensku í töluðu og rituðu máli en önnur tungumálakunnátta væri kostur. Þá var gerð krafa um lipurð og færni í mannlegum samskiptum, skipulögð, nákvæm og sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði, metnað og getu til að vinna undir álagi, jákvæðni og ríka þjónustulund, góða almenna tölvukunnáttu og hreint sakavottorð.
  32. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki sé mælt fyrir um þessa þætti í lögum sé það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni embættisins að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefna­legar. Í því sambandi bendir kærunefndin á að í auglýsingu hafi ekki verið áskilið að umsækjandi hefði meistarapróf í lögfræði heldur hafi meistaragráða verið talin æskileg. Þá var þekking á stjórnsýslurétti talin æskileg en ekki sérstaklega vikið að þekkingu á skattarétti, sakamálaréttarfari eða refsirétti. Er því ekkert sem bendir til þess að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að umsækjendur, sem ekki voru með slíka menntun eða þekkingu eða minni en aðrir umsækjendur, hafi verið taldir uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til starfsins.
  33. Í málinu liggur fyrir að kæranda var boðið í fyrra starfsviðtal en ekki það síðara. Af matsblaði sem liggur fyrir í málinu og byggt var á við val á umsækjendum í síðara viðtal má ráða að kærandi hafi fengið fleiri stig fyrir menntun og starfsreynslu en konan sem kæran beinist að, en færri stig fyrir þá þætti sem voru m.a. metnir í viðtali þar sem konan fékk fleiri stig. Í því sambandi skal tekið fram að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á slíkri stigagjöf er hún einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  34. Kærði hefur gert grein fyrir því að sérstaklega hafi verið horft til þess við mat á umsækj­endum hvernig þeir myndu standa sig í samskiptum við skattaðila. Þannig hafi bæði starfsreynsla konunnar sem kæra beinist að af fjármálaráðgjöf, þjónustustörfum og samskiptum við fólk í greiðsluerfiðleikum sem og persónubundnir þættir eins og já­kvætt viðmót og þægileg nærvera í viðtali ráðið því að hún var valin umfram aðra umsækjendur. Á móti hafi kærði talið eftir viðtal við kæranda að kærandi kæmi ekki til með að uppfylla þær kröfur sem væru gerðar um lipurð og færni í mannlegum samskiptum. Hafi kærði einnig við það mat litið til fyrirliggjandi upplýsinga um fyrri reynslu af störfum kæranda fyrir Tollstjóra, sem sé nú hluti af embætti kærða. Að mati kærunefndar verður hvorki talið að slíkt hafi verið óheimilt né ómálefnalegt. Verður því ekki betur séð en að mat kærða hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt og málefnalegt.
  35. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem kæra beinist að og var valin í síðara viðtal og í framhaldinu ráðin í eitt starfanna hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Það skal tekið fram að ekki verður séð að kærði hafi notað það gegn kæranda við ákvörðun sína um það hverjum yrði boðið í síðara viðtal að hann hafi áður kært ákvörðun skattrannsóknarstjóra, sem nú er hluti af embætti kærða, um ráðningu í starf sem hann fékk ekki, til kærunefndar jafnréttis­mála. Því til stuðnings er bent á að kæranda var boðið í fyrra viðtal og var hann einn þeirra 19 umsækjenda sem þáðu það boð kærða en samtals 81 umsókn barst um störfin.
  36. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á þeim umsækjanda sem kæran beinist að hafi verið málefnalegt, forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í umrætt starf hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  37. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf sérfræðings á Eftirlits- og rannsóknasviði kærða. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Skatturinn, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf sérfræðings á Eftirlits- og rannsóknasviði við embættið.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum